Baráttan harðnar í neðri hlutanum

Callum Robinson og Ainsley Maitland-Niles fagna þriðja markinu í kvöld.
Callum Robinson og Ainsley Maitland-Niles fagna þriðja markinu í kvöld. AFP

West Bromwich Albion virðist ekki hafa sagt sitt síðasta orð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og vann öruggan 3:0 sigur á Southampton í kvöld. 

Liðið hefur unnið tvo leiki í röð og skorað í þeim átta mörk. WBA fylgdi eftir 5:2 útisigri á Chelsea með 3:0 sigrinum í kvöld. 

WBA er nú með 24 stig í næstneðsta sæti, aðeins tveimur stigum á eftir Fulham. Liðið er þó enn átta stigum á eftir Brighton og Newcastle sem eru í sætunum fyrir ofan fallsætin. 

Matheus Pereira, Matthew Phillips og Callum Robinson skoruðu fyrir WBA í kvöld en staðan var 2:0 að loknum fyrri hálfleik. 

James Ward-Prowse brenndi af vítaspyrnu fyrir Southampton í uppbótartímanum þegar Sam Johnstone varði frá honum. 

mbl.is