Henderson kallar fyrirliðana á neyðarfund

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, hefur kallað saman neyðarfund hjá fyrirliðum liðanna tuttugu í ensku úrvalsdeildinni vegna fyrirætlana um stofnun evrópskrar ofurdeildar þar sem sex ensk félög eiga aðild.

Daily Mail skýrir frá þessu í dag. Þar á meðal er Liverpool, lið Hendersons, sem og Manchester United, Chelsea, Arsenal, Tottenham og Manchester City.

Henderson nýtur mikillar virðingar meðal leikmanna deildarinnar, að sögn Daily Mail, en hann var áður í forsvari fyrir enska knattspyrnumenn í samvinnu þeirra við breska heilbrigðiskerfið vegna kórónuveirufaraldursins en þar var hrundið af stað fjáröflun til aðstoðar því.

mbl.is