Stjórnarformaðurinn hættir í Manchester

Ed Woodward lætur af störfum hjá Manchester United.
Ed Woodward lætur af störfum hjá Manchester United. AFP

Ed Woodward mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en til stóð að Woodward myndi láta af störfum hjá enska félaginu um næstu áramót.

Hann hefur hins vegar ákveðið að stíga til hliðar strax að þessu keppnistímabili loknu og má leiða að því líkur að það sé vegna fyrirætlana um evrópska ofurdeild sem hefur ekki fengið góðan hljómgrunn í knattspyrnusamfélaginu.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að tólf af stærstu liðum Evrópu ætluðu að hætta þátttöku í Evrópukeppnum á vegum UEFA og stofna sína eigin ofurdeild.

Hugmyndin hefur vakið upp mikla reiði hjá knattspyrnuáhugamönnum, leikmönnum og þjálfurum.

Fyrr í kvöld bárust fréttir af því að Chelsea og Manchester City myndu ekki taka þátt í ofurdeildinni og nú hefur Woodward sagt af sér en hann fundaði með leikmönnum United í gær um fyrirhugaða ofurdeild og fór það ekki vel í leikmannahóp enska liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert