Fundað um refsingar fyrir ensku liðin sex

Stuðningsfólk Chelsea hafði mikil áhrif á gang mála síðdegis í …
Stuðningsfólk Chelsea hafði mikil áhrif á gang mála síðdegis í gær með mótmælum sínum við Stamford Bridge. AFP

Þótt Liverpool, Arsenal, Chelsea, Tottenham, Manchester United og Manchester City séu hætt við þátttöku í evrópsku ofurdeildinni gætu þau átt yfir höfði sér refsingar fyrir að eiga aðild að stofnun hennar.

Hin fjórtán félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa hug á að funda aftur um stöðu mála síðar í dag en fulltrúar þeirra komu saman í gærmorgun og ræddu stöðuna sem þá var komin upp.

Sky Sports hefur eftir fulltrúa eins félaganna að þau vilji skoða áfram möguleika á refsingu, ljóst sé að félögin sex hafi brotið reglur úrvalsdeildarinnar og skapa þurfi fordæmi fyrir viðbrögðum sem komi í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig síðar.

Vitnað er í eina af reglum úrvalsdeildarinnar sem segir að félög þurfi skriflegt leyfi stjórnar deildarinnar til að fá að taka þátt í nýrri keppni og sagt að ljóst sé að sú regla hafi verið brotin með því að skrifa undir samning um þátttöku í ofurdeildinni.

Framkvæmdastjóri eins af félögunum fjórtán sagði við Sky Sports að fara yrði gætilega með refsingar. Stigamissir og sektir myndu ekki bitna á réttum aðilum því það væru leikmenn, knattspyrnustjórar og stuðningsfólk sem myndu tapa mest á slíkum aðgerðum.

Þá er áfram mikil reiði hjá stuðningsfólki félaganna í garð stjórnenda þeirra sem fóru eins langt og þeir gátu með að ganga til liðs við ofurdeildina en urðu að játa sig sigraða vegna þrýstings og mótmæla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert