Gylfi fær aldrei það hrós sem hann á skilið

„Það hefur enginn spilað fleiri leiki,“ sagði Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans, um leikjafjölda Gylfa Þórs Sigurðssonar í ensku úrvalsdeildinni frá 15. janúar 2012 í Vellinum á Símanum Sport í dag.

Gylfi Þór gekk til liðs við Swansea sem lánsmaður frá Hoffenheim í janúar 2012 og lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni um miðjan janúar sama ár.

Frá því Gylfi kom fyrst til Englands hefur enginn leikið fleiri leiki en hann í deildinni en hann skákar mönnum á borð við Cesar Azpilicueta, Raheem Sterling, Kyle Walker og Mark Noble.

„Samt finnst manni hann aldrei fá það hrós sem hann á skilið og stuðningsmenn Everton eru oft eitthvað óánægðir með hann,“ sagði Gylfi Einarsson í Vellinum.

„Eru menn ekkert að horfa á tölfræði eða frammistöðuna almennt hvernig hann hefur skilað sínu í gegnum árin,“ bætti Gylfi við.

mbl.is