23 dauðafæri í súginn

Timo Werner hefur skorað sex mörk í ensku úrvalsdeildinni á …
Timo Werner hefur skorað sex mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Knattspyrnumanninum Timo Werner hefur gengið illa að skora fyrir enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea á tímabilinu.

Werner, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við Chelsea frá RB Leipzig í Þýskalandi síðasta sumar en enska félagið borgaði 47,5 milljónir punda fyrir framherjann.

Werner skoraði 28 mörk í 34 leikjum í þýsku 1. deildinni með RB Leipzig á síðustu leiktíð þegar liðið hafnaði í þriðja sæti deildarinnar.

Hann hefur hins vegar aðeins skorað sex mörk í 31 leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og ellefu mörk alls í öllum keppnum.

Samkvæmt tölfræðisíðunni Opta hefur Werner brennt af 23 dauðafærum á tímabilinu en mörg þessara færa hafa verið fyrir nánast opnu marki.

Þrátt fyrir að Werner hafi ekki staðið undir væntingum hefur Chelsea gert vel á tímabilinu en liðið er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 58 stig, ásamt því að vera komið áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

mbl.is