Myndi elska að hafa hann áfram

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ólmur vilja halda Edinson Cavani hjá félaginu í eitt tímabil til viðbótar.

Cavani fór á kostum í 6:2 sigri liðsins gegn Roma í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær þar sem hann skoraði tvö mörk, lagði upp önnur tvö og fékk vítaspyrnu.

„Hann veit hvað mér finnst. Hann veit að ég myndi elska að hafa hann hér áfram. Edinson er meira en bara potari. Hann er frábær í að hlaupa í svæði, að vera miðpunktur sóknarleiks og að koma öðrum leikmönnum inn í leikinn,“ sagði Solskjær eftir stórsigurinn í gær.

Hann hefur verið inn og út úr liðinu á tímabilinu, auk þess að hafa verið í einangrun fyrstu vikur sínar í Manchester. Þá var hann dæmdur í þriggja leikja bann fyrir rasísk ummæli í færslu á Instagram-aðgangi sínum.

Cavani, sem er 34 ára, samdi við Man Utd í október síðastliðnum og hefur ekki ákveðið enn hvort hann semji við félagið að nýju.  

 „Hann er svolítið að bæta upp fyrir tapaðan tíma og ég er hæstánægður með hann. Vonandi sjáum við hann hér í ár til viðbótar. Ég er að gera mitt besta. Ég lofaði honum að Old Trafford er öðruvísi með stuðningsmönnum.

Hann verður að reyna að fá þessa tilfinningu, að vera á okkar bandi. Vonandi komumst við í úrslitaleikinn og vonandi sér hann fyrir sér að vera áfram hérna í annað ár,“ bætti Solskjær við.

mbl.is