Enginn talað við mig um nýjan samning

Mohamed Salah á tvö ár eftir af samningi sínum við …
Mohamed Salah á tvö ár eftir af samningi sínum við Liverpool. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur ekki hafið viðræður við félagið um nýjan samning.

„Það er enginn að tala við mig um neitt þannig að ég get ekki sagt mikið um það,“ sagði Salah og hló við í viðtali hjá Sky Sports um helgina, eftir að hafa verið spurður út í samningsmál sín.

Yfirstandandi samningur hans við Liverpool rennur út sumarið 2023 og undanfarið ár eða svo hefur hann þrálátlega verið orðaður við spænsku stórveldin Real Madríd og Barcelona.

„Það er enginn hjá félaginu sem er að tala við mig um neitt þannig að ég veit ekki,“ sagði Salah einnig.

Hann verður í eldlínunni í dag þegar Liverpool heimsækir Manchester United á Old Trafford í stórslag helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn hefst klukkan 15.30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport. Upphitun hefst klukkan 15.

mbl.is