Skoraði þrennu gegn botnliðinu

Gareth Bale fór á kostum í dag.
Gareth Bale fór á kostum í dag. AFP

Gareth Bale var allt í öllu þegar Tottenham valtaði yfir Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Tottenham Hotspur-vellinum í London í dag.

Leiknum lauk með 4:0-sigri Tottenham en Bale gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum.

Bale kom Tottenham yfir á 36. mínútu áður en hann bætti við öðru marki sínu á 61. mínútu.

Bale var svo aftur á ferðinni og fullkomnaði þrennuna á 69. mínútu áður en Son Heung-min innsiglaði sigur Tottenham með marki á 77. mínútu.

Tottenham fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 56 stig og er nú fimm stigum á eftir Chelsea sem er í fjórða sætinu.

Sheffield United er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar með 17 stig og löngu fallið úr deildinni.

mbl.is