„Sætti mig ekki við að mér séu lögð orð í munn”

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á hliðarlínunni í leiknum gegn Chelsea …
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á hliðarlínunni í leiknum gegn Chelsea í gærkvöldi. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, lét bresku pressuna heyra það eftir 1:0 sigur liðsins gegn nágrönnum sínum í Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Fyrir leikinn í gær talaði Arteta um að ekki hefðu allir leikmenn hans náð að spila eins vel og þeir ættu að geta. Í sumum fjölmiðlum ytra var því þá slegið upp að hann væri að draga vilja þeirra til þess að leggja sig fram í efa.

„Ég sætti mig ekki við að mér séu lögð orð í munn, að ég sé sagður hafa sagt eitthvað sem ég gerði ekki,“ sagði Arteta reiður í samtali við BBC eftir leikinn.

Hann sagði góðan anda liðsins hafa skinið í gegn í leiknum í gær. „Fjölmiðlar mega segja hvað þeim finnst utan frá, það er í fínu lagi, en að reyna að brjóta það sem við höfum hér fyrir innan er ekki mögulegt. Það eru engar brotalamir innan félagsins. Fjölmiðlar reyna að eigna mér eitthvað sem ég sagði aldrei.“

Arteta útskýrði svo ummæli sín nánar. „Ég sagði að ef ég næ ekki 120 prósentum út úr hverjum einasta leikmanni er það mér að kenna og mín ábyrgð. Þannig leit þetta ekki út í fjölmiðlum. Ég er mjög pirraður yfir því.“

Hann sagðist ávallt myndu vernda leikmenn sína og að þeir ættu það ekki skilið að vilji þeirra til að leggja sig fram væri dreginn í efa.

mbl.is