Villa að skáka Arsenal um Argentínumann

Emiliano Buendía í leik með Norwich City.
Emiliano Buendía í leik með Norwich City. AFP

Argentínski sóknartengiliðurinn Emiliano Buendía er á leið til enska knattspyrnufélagsins Aston Villa. Kaupin eru nánast frágengin og verður um metkaup Villa að ræða og metsölu Norwich City sömuleiðis.

Kaupverðið er um 33 milljónir punda að meðtöldum bónusgreiðslum. Arsenal bauð einnig í Buendía í vikunni en tilboði Lundúnafélagsins var umsvifalaust hafnað.

Villa hafði hins vegar hraðar hendur og bauð hærri upphæð sem var nær því sem Norwich var tilbúið að samþykkja.

Á nú einungis eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum þar sem Norwich er búið að samþykkja kauptilboðið, auk þess sem Buendía er búinn að samþykkja samning sinn og standast læknisskoðun.

Hann hjálpaði Norwich að vinna ensku B-deildina á nýafstöðnu tímabili og koma liðinu þannig upp í ensku úrvalsdeildina að nýju. Lék hann einnig með liðinu í úrvalsdeildinni á þarsíðasta tímabili, þegar liðið endaði í neðsta sæti.

Buendía, sem er 24 ára gamall, hefur einnig leikið með Getafe í efstu og næstefstu deild Spánar.

Hann var valinn í argentínska A-landsliðshópinn í fyrsta skipti á dögunum og gæti spilað sinn fyrsta landsleik gegn Kólumbíu í undankeppni HM 2022 næstkomandi þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert