Verður áfram í Austur-Lundúnum

David Moyes er ekki á förum frá West Ham.
David Moyes er ekki á förum frá West Ham. AFP

Skoski knattspyrnustjórinn David Moyes hefur skrifað undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið West Ham. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

Moyes hefur stýrt liði West Ham frá árinu 2019 en liðið náði frábærum árangri á nýliðnu tímabili og hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Skotinn, sem er 58 ára gamall, hefur að undanförnu verið orðaður við stjórastöðuna hjá Everton þar sem hann náði góðum árangri frá 2002 til ársins 2013 en hann lét af störfum hjá Everton til þess að taka við Manchester United.

Þar gengu hlutirnir ekki upp og var Moyes rekinn vorið 2014 en hann hefur einnig stýrt Preston, Real Sociedad og Sunderland á þjálfaraferli sínum.

mbl.is