Tottenham og Sevilla skiptast á leikmönnum

Bryan Gil fagnar marki í leik með Sevilla.
Bryan Gil fagnar marki í leik með Sevilla. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur keypt spænska kantmanninn Bryan Gil frá Sevilla og argentínski kantmaðurinn Erik Lamela fer í staðinn til spænska félagsins sem hluti af skiptunum.

Samkvæmt Sky Sports borgar Tottenham 21,6 milljónir punda á milli í þessum gagnkvæmu félagaskiptum.

Bryan Gil er tvítugur að aldri og semur við Tottenham til fimm ára. Hann kom inn í spænska A-landsliðið í mars og hefur leikið þrjá leiki með því en spilaði áður með öllum yngri landsliðum Spánverja. Hann er uppalinn hjá Sevilla en hefur aðeins spilað 14 deildaleiki með félaginu og verið undanfarin tvö ár lánaður til Eibar og Leganés.

Erik Lamela í landsleik með Argentínu.
Erik Lamela í landsleik með Argentínu. AFP

Erik Lamela er 29 ára gamall, hefur leikið með Tottenham í átta ár og semur við Sevilla til þriggja ára. Hann kom til Tottenham frá Roma árið 2013 og skoraði 17 mörk í 177 leikjum í úrvalsdeildinni. Lamela á að baki 25 landsleiki fyrir Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert