City marði Leicester – Arsenal vann loksins

Pierre-Emerick Aubameyang fagnar sigurmarki sínu í dag.
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP

Englandsmeistarar Manchester City vann nauman 1:0 útisigur gegn Leicester City þegar liðin mættust í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Sigurmarkið skoraði Portúgalinn Bernardo Silva eftir rúmlega klukkutíma leik. Landi hans Joao Cancelo átti þá skot sem fór af varnarmanni og Silva var fljótur að átta sig og kom boltanum í netið af stuttu færi.

Á sama tíma fékk Arsenal nýliða Norwich City í heimsókn. Þar reyndist Pierre-Emerick Aubameyang hetjan þegar hann skoraði sigurmarkið, fyrsta mark Arsenal í deildinni á tímabilinu, á 66. mínútu.

Nicolas Pépé skaut þá í stöngina en náði boltanum aftur og gaf hann á Aubameyang sem skoraði auðveldlega.

Brighton & Hove Albion vann þá nauman sigur gegn nýliðum Brentford á ögurstundu. Leandro Trossard skoraði sigurmarkið á 90. mínútu eftir undirbúning Alexis MacAllister.

Þetta var fyrsta tap Brentford í ensku úrvalsdeildinni.

Wolverhampton Wanderers gerðu þá góða ferð til Watford og unnu 2:0 útisigur.

Sílebúinn Francisco Sierralta, leikmaður Watford, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Suður-Kóreubúinn Hee-Chan Hwang gerði svo út um leikinn á 83. mínútu þegar hann skoraði fyrir Úlfana í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni.

Þá gerðu Southampton og West Ham United markalaust jafntefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert