Ótrúlegt úrval enskra hægri bakvarða

Matty Cash er að skipta um ríkisfang.
Matty Cash er að skipta um ríkisfang. AFP

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er ekki á flæðiskeri staddur þegar kemur að því að velja hægri bakverði í landsliðshóp sinn.

Svo margir liðtækir leikmenn spila stöðuna að Southgate hefur haft það fyrir sið að velja fjóra þeirra í hópinn sinn; þá Kyle Walker hjá Manchester City, Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool, Reece James hjá Chelsea og Kieran Trippier hjá Atlético Madríd.

Þetta veldur því að öflugir hægri bakverðir á við Aaron Wan-Bissaka hjá Manchester United og James Justin hjá Leicester City, sem er þó meiddur um þessar mundir, hafa ekki enn spilað A-landsleik fyrir England.

Upptalningunni er þó ekki lokið því sex aðrir hægri bakverðir hjá enskum úrvalsdeildarliðum hafa gert sig gildandi undanfarin tímabil; þeir Matty Cash hjá Aston Villa, Luke Ayling hjá Leeds United, Tariq Lamptey hjá Brighton & Hove Albion, Max Aarons hjá Norwich City og þeir Kyle Walker-Peters og Tino Livramento hjá Southampton.

Miðjumaðurinn James Milner hefur auk þess leyst af í hægri bakverði hjá Liverpool þegar Alexander-Arnold er meiddur, þó Milner sé hættur að leika með enska landsliðinu. Auk þess leysir miðvörðurinn Joe Gomez stundum af í stöðunni hjá Liverpool þegar þörf krefur.

Miðjumaðurinn Jamie Shackleton hefur svo leyst Ayling af hjá Leeds að undanförnu í stöðunni vegna meiðsla hans og staðið sig vel.

Miðverðirnir Ben Godfrey og Mason Holgate hafa stundum spilað stöðuna hjá Everton og þá er hinn hreinræktaði bakvörður Jonjoe Kenny á mála hjá félaginu þó hann fái sjaldan tækifæri.

Þá er ógetið James Tavernier, hægri bakvarðar Skotlandsmeistara Rangers, sem hefur vakið athygli fyrir mikla markaskorun sína í skosku úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni á undanförnum tímabilum, þar sem hann skoraði til að mynda nítján mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili.

Nokkrir geta skipt um ríkisfang

Í síðasta mánuði bárust fregnir af því að Cash, sem hefur leikið vel fyrir Villa á þessu og síðasta tímabili, ynni að því að skipta um ríkisfang, en móðir hans er pólsk og hann því gjaldgengur í pólska landsliðið.

Í gær birti Cash mynd af sér í pólska sendiráðinu í Lundúnum þar sem hann tók næsta skref í þá átt að öðlast ríkisborgararétt, en hann vill gjarna spila með Póllandi á HM 2022 í Katar, tryggi liðið sér sæti þar.

Fleiri leikmenn hafa færi á því að skipta um ríkisfang hafi þeir hug á. Wan-Bissaka getur spilað fyrir Lýðveldið Kongó, Lamptey getur spilað fyrir Gana, Aarons getur spilað fyrir Jamaíka og Livramento getur valið á milli Portúgals og Skotlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert