Keita ekki alvarlega meiddur

Naby Keita var borinn af velli gegn Liverpool.
Naby Keita var borinn af velli gegn Liverpool. AFP

Naby Keita, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er ekki alvarlegur meiddur þrátt fyrir að hafa verið borin af velli í leik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á sunnudaginn síðasta.

Leiknum lauk með 5:0-sigri Liverpool en Paul Pogba, miðjumaður United, fór í ljóta tveggja fóta tæklingu á Keita í leiknum með þeim afleiðingum að Pogba fékk að líta beint rautt spjald.

Keita var í kjölfarið borinn af velli og óttuðust margir að hann væri fótbrotinn eftir tæklinguna frá Pogba.

„Naby er illa marinn en það er ekkert beinbrot,“ sagði Pep Lijnders, aðstoðarþjálfari Liverpool, á blaðamannafundi í dag.

„Í fyrstu óttuðumst við að meiðslin væru alvarleg en það reyndist ekki raunin. Þetta er slæmt mar og við fylgjumst vel með honum.

Eins og staðan er í dag lítur þetta vel út og allt er á réttri leið,“ bætti Lijnders við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert