Guardiola: „Mun ekki þjálfa annað félag á Englandi“

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, telur það ólíklegt að hann muni nokkru sinni stýra öðru liði á Englandi en City.

Guardiola er samningsbundinn City til sumarsins 2023 og vill í sínu næsta verkefni gjarna reyna fyrir sér með landsliði.

„Ég hef sagt það mörgum sinnum að þegar við höfum lokið starfi okkar hér langar mig að upplifa gleðina sem fylgir því að fara á Evrópumót og heimsmeistaramót með landsliði, ég myndi vilja það en ég veit að það er ekki auðvelt að finna slíkt starf því venjulega eru bara fáar lausar stöður,“ sagði Guardiola í samtali við Sky Sports.

Hann sagði að þó hann beri þennan draum í brjósti sér yrði það ekkert stórmál ef honum býðst hvergi landsliðsþjálfarastaða.

„Ég tel að það verði erfitt að koma því í kring. Ég myndi vilja það en ef það gerist ekki mun ég taka við félagsliði. Það er ekkert vandamál. Verandi hér á Englandi þá tel ég að ég muni einungis vera hjá Man. City.

Ef ég kæmi aftur til Englands þá væri það aftur til Man. City ef þeir vilja mig. Ég tel að ég muni ekki þjálfa annað félag á Englandi, ég er hluti af þessu félagi,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert