Lykilmaður Liverpool að snúa aftur

Roberto Firmino gæti snúið aftur til æfinga í næstu viku.
Roberto Firmino gæti snúið aftur til æfinga í næstu viku. AFP

Roberto Firmino, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, nálgast endurkomu á knattspyrnuvöllinn. Þetta tilkynnti Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, á blaðamannafundi með fjölmiðlamönnum í dag.

Firmino fór meiddur af velli í 2:0-sigri Liverpool gegn Atlético Madrid í B-riðli Meistaradeildarinnar hinn 3. nóvember og hefur ekki leikið með liðinu síðan en hann tognaði aftan í læri gegn Atlético.

Liverpool heimsækir Everton í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park í Liverpool á morgun en Firmino verður fjarverandi í leiknum og vonast Klopp til þess að hann geti hafið æfingar af fullum krafti í næstu viku.

Þá greindi Klopp einnig frá því að þeir Naby Keita, Joe Gomez og Curtis Jones séu allir nálægt því að snúa aftur í liðið en þeir hafa verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur.

mbl.is