„Erfitt að hunsa svona nokkuð“

Jordan Pickford tæklar Virgil van Dijk illa fyrir rúmu ári …
Jordan Pickford tæklar Virgil van Dijk illa fyrir rúmu ári síðan. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að eflaust hugsi Virgil van Dijk til þess að hann sé að snúa aftur á völlinn þar sem hann meiddist illa á hnéi en að öðru leyti sé bara um enn annan leik að ræða þegar liðið sækir nágranna sína í Everton heim á Goodison Park í kvöld.

Í leik liðanna snemma á síðasta tímabili sleit van Dijk krossband í hnéi eftir fólskulega tæklingu Jordan Pickford, markvarðar Everton. Var van Dijk frá í átta mánuði vegna meiðslanna.

„Við erum öll mannleg þannig að það er að öllum líkindum erfitt að hunsa svona nokkuð. En Virgil er mjög reyndur og hann er stöðugt að lenda í svona aðstæðum eftir að hann sneri aftur á völlinn.

Hann er alltaf í návígjum og öllu slíku, þar sem hann verður bara að láta sig allt það sem gæti bærst innra með honum engu varða þrátt fyrir eitt atvik í fortíðinni,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

Leikurinn á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni hefst klukkan 20.15 í kvöld og er sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert