Frægasta (ó)mark sögunnar? (myndskeið)

Goðsögnin Kevin Keegan í leik með Southampton síðla árs 1981.
Goðsögnin Kevin Keegan í leik með Southampton síðla árs 1981. AFP

Alan Ball sendir fyrir frá hægri. Gordon McQueen stekkur hæst allra og skallar frá. En aðeins í áttina að Kevin Keegan sem skyndilega er flatur í loftinu og klippir knöttinn í fjærhornið; gjörsamlega óverjandi fyrir Paddy Roche í markinu. „Stórkostlegt mark. Geggjað mark hjá Keegan,“ gellur í goðsögninni Brian Moore sem er að lýsa leiknum í sjónvarpinu. Áhorfendur á The Dell ganga af göflunum.

En hvað er a’tarna? „Ég held að markið fái ekki að standa,“ heldur Moore áfram. „Línuvörðurinn er með hendur á mjöðmum sér. Hvers vegna í ósköpunum?“ Já, þetta glæsimark var dæmt af, á „óljósum forsendum“, eins og Morgunblaðið orðaði það í uppgjöri sínu eftir helgina. Skýringin var rangstaða; ekki á Keegan sjálfan heldur félaga hans í Southampton-liðinu, David Armstrong, sem var sannarlega fyrir innan varnarlínu Manchester United – án þess þó að hafa nein áhrif á leikinn. Mark sem aldrei hefði verið dæmt af í samtímanum.

Í gær, sunnudag, voru fjörutíu ár liðin frá því að Keegan gerði þetta fræga (ó)mark. Mögulega það fallegasta í sparksögunni sem dæmt hefur verið af. Armstrong bætti hins vegar fyrir axarskaft sitt með því að skora sigurmarkið á lokamínútu leiksins, 3:2.

Gamla fréttin er alltaf á baksíðu Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert