Leikmaður Chelsea kominn í einangrun

Mateo Kovacic er kominn í einangrun.
Mateo Kovacic er kominn í einangrun. AFP

Mateo Kovacic, leikmaður enska knattspyrnuliðsins Chelsea, er kominn í einangrun vegna kórónuveirusmits.

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, skýrði frá þessu á fréttamannafundi í dag en liðið er á leið í leik gegn Zenit Pétursborg í Rússlandi í Meistaradeildinni annað kvöld.

Kovacic hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðan í október og misst af síðustu átta leikjum liðsins en kom til greina í liðið á ný fyrir leikinn í Rússlandi.

„Hann var brosandi út að eyrum á æfingu í gær og það var frábært að fá hann aftur, en síðan greindist hann jákvæður í dag og er kominn í einangrun. Ég vissi að þetta gæti gerst og er ósáttur við það, bæði sem knattspyrnustjóri og sem venjulegur borgari. En svona er raunveruleikinn um þessar mundir og við þurfum að laga okkur að honum og tryggja heilsu fólks," sagði Tuchel.

Fram kom að Ben Chilwell, Jorginho, N'Golo Kanté og Trevoh Chalobah myndu allir missa af leliknum vegna meiðsla. Chelsea er þegar komið áfram í Meistaradeildinni og vinnur riðilinn ef liðið sigrar í Pétursborg.

mbl.is