Sögulegt afrek Liverpool

Liverpool lauk riðlakeppninni með fullt hús stiga.
Liverpool lauk riðlakeppninni með fullt hús stiga. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool lauk keppni í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í gær með 2:1-sigri gegn AC Milan í B-riðli keppninnar á San Síró í Mílanó.

Það var Divock Origi sem skoraði sigurmark leiksins á 55. mínútu en Mohamed Salah jafnaði metin fyrir Liverpool undir lok fyrri hálfleiks eftir að Fikayo Tomori hafði komið AC Milan yfir snemma leiks.

Liverpool endaði með fullt hús stiga eða 18 stig í efsta sæti riðilsins og er þetta í fyrsta skiptið í sögu Meistaradeildarinnar sem enskt lið endar með fullt hús stiga í riðlakeppninni.

Stuðst hefur verið við núverandi fyrirkomulag í Meistaradeildinni frá árinu 1997 en riðlakeppnin var fyrst tekin upp árið 1992.

Dregið verður í sextán liða úrslit keppninnar á mánudaginn kemur en Liverpool hefur sex sinnum fagnað sigri í keppninni.

mbl.is