Chelsea skoraði fimm

Timo Werner kom Chelsea á bragðið.
Timo Werner kom Chelsea á bragðið. AFP

Chelsea er komið áfram í 4. umferð enska bikarsins í fótbolta eftir þægilegan 5:1-heimasigur á Chesterfield. Chesterfield leikur í efstu utandeild Englands, fimmtu efstu deild.

Úrvalsdeildarliðið komst yfir strax á 6. mínútu er Timo Werner skoraði og þeir Callum Hudson-Odoi og Romelu Lukaku sáu til þess að staðan væri 3:0 eftir 20 mínútu.

Danski varnarmaðurinn Andreas Christsensen bætti við fjórða markinu á 39. mínútu og Hakim Ziyech því fimmta úr víti á 55. mínútu. Akwasi Asante minnkaði muninn á 80. mínútu og þar við sat.

Þá vann Bournemouth úr B-deildinni öruggan 3:1-útisigur á Yeovil, sem leikur í sömu deild og Chesterfield. Emiliano Marcondes skoraði öll mörk Bornemouth á meðan Joe Quickley gerði mark Yeovil.

mbl.is