Segir það rangt að Thiago verði lengi frá

Jürgen Klopp og Thiago fallast í faðma.
Jürgen Klopp og Thiago fallast í faðma. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool, segir ekkert hæft í þeim orðrómum að spænski miðjumaðurinn Thiago verði lengi frá vegna mjaðmarmeiðsla sem hann glímir nú við.

„Hann kemur ekki til baka í mars né undir lok tímabils. Þetta eru meiðsli við mjöðmina, það er staðan.

Hann æfði ekki í síðustu viku en við búumst við því að hann komi aftur á æfingasvæðið og hefji endurhæfingu frá og með mánudeginum [í dag]. Það er ekki þannig að hann verði frá út tímabilið, alls ekki“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

Thiago hefur ekki spilað frá því í 3:1 sigrinum gegn Newcastle United þann 16. desember síðastliðinn. Skömmu fyrir jól smitaðist hann af kórónuveirunni.

Eftir að Thiago jafnaði sig á smitinu hóf hann æfingar að nýju en stuttu eftir það meiddist hann á mjöðm.

Miðað við orð Klopps má búast við Thiago til baka á keppnisvöllinn í síðasta lagi í febrúar.

mbl.is