Haaland gæti farið til City í sumar

Erling Braut Haaland er einn besti framherji heims.
Erling Braut Haaland er einn besti framherji heims. AFP

Englandsmeistarar Manchester City eru líklegastir í baráttunni um þjónustu norska knattspyrnumannsins Erling Braut Haaland. Gæti hann gengið í raðir félagsins frá Dortmund næsta sumar. 

Sky greinir frá því að Haaland muni ákveða næsta skref á ferlinum í þessum mánuði og að Manchester City sé líklegast til að kaupa norska framherjann, sem er einn sá eftirsóttasti í heimi.

Klásúla í samningi Norðmannsins gerir það að verkum að félög geta keypt hann á 64 milljónir punda í sumar. Mino Raiola, umboðsmaður Haaland, greindi frá í viðtali við Sky á dögunum að Haaland myndi líklegast yfirgefa Dortmund eftir yfirstandandi tímabil.

Haaland hefur farið á kostum með Dortmund og skorað 53 mörk í 55 deildarleikjum með liðinu. Þar á undan gerði hann 16 mörk í 14 deildarleikjum með Salzburg í Austurríki. Þá hefur Haaland verið iðinn við kolann í Meistaradeildinni og skorað 23 mörk í 17 leikjum í keppninni.

mbl.is