Frábært að fá leikmann í þessum gæðaflokki í janúar

Lucas Digne er kominn til Aston Villa.
Lucas Digne er kominn til Aston Villa. AFP

Aston Villa og Everton staðfestu í dag að Villa hefði keypt franska landsliðsbakvörðinn Lucas Digne af Everton.

Kaupverðið var ekki gefið upp en  talið er að það sé í kringum 20 milljónir punda. Digne vildi losna frá Everton eftir að hafa lent upp á kant við knattspyrnustjórann Rafael Benítez í desember.

Chelsea, Newcastle og West Ham sýndu öll áhuga á að fá Digne í sínar raðir en Villa hafði betur. „Þegar ljóst var að Lucas væri á lausu stukkum við á það. Að geta keypt leikmann í hans gæðaflokki í janúar er frábær styrking fyrir okkar leikmannahóp og ég og allir hjá Aston Villa erum afar spenntir fyrir komu hans," sagði Steven Gerrard knattspyrnustjóri Aston Villa á vef félagsins.

Digne er 28 ára gamall vinstri bakvörður og hefur leikið með Everton frá 2018 þar sem hann lék 113 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði fjögur mörk. Hann hefur m.a. verið þekktur fyrir góðar aukaspyrnur og fyrirgjafir.

Samkvæmt tölfræði úrvalsdeildarinnar er hann sá varnarmaður sem hefur frá árinu 2018 lagt upp næstflest marktækifæri fyrir samherja sína, á eftir Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool.

Digne hefur komið mikið við sögu með landsliði Frakklands á undanförnum árum og hefur leikið 43 landsleiki.

Hann ólst upp hjá Lille frá tólf ára aldri og lék með félaginu til 2013 en síðan með París SG, Roma og Barcelona áður en Everton keypti hann af katalónska félaginu fyrir 18 milljónir punda sumarið 2018.

mbl.is