Valdi Aston Villa vegna Gerrards

Steven Gerrard tók við Aston Villa í nóvember.
Steven Gerrard tók við Aston Villa í nóvember. AFP

Franski landsliðsbakvörðurinn Lucas Digne segir að knattspyrnustjórinn Steven Gerrard hafi ráðið úrslitum um að hann valdi að fara til Aston Villa en ekki annarra liða í ensku úrvalsdeildinni sem voru mjög áhugasöm um að fá hann frá Everton.

„Knattspyrnustjórinn var aðalástæða þess að ég kom hingað. Ég átti mjög góðan fund með honum og við ræddum nokkrum sinnum saman. Ég finn hve mikla ástríðu hann hefur fyrir því að sigra, til að sýna góðan fótbolta, spila sóknarleik og vera með boltann. Þetta er nákvæmlega það sem mig langar til að gera og vil geta sýnt stuðningsmönnum félagsins," sagði Digne eftir að hafa skrifað undir hjá Aston Villa.

Aston Villa hefur nú náð í tvo nýja menn í janúar en hinn er Philippe Coutinho, Brasilíumaðurinn sem lék með Gerrard í tvö ár hjá Liverpool.

Þriðji leikmaðurinn sem orðaður er við Aston Villa er Yves Bissouma, miðjumaður Brighton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert