Hvað er ég að gera hérna?

Sol Campbell varð tvisvar enskur meistari með Arsenal og bikarmeistari …
Sol Campbell varð tvisvar enskur meistari með Arsenal og bikarmeistari í þrígang. PHIL NOBLE

Það eru einhver frægustu og umdeildustu vistaskipti sparksögunnar þegar varnarmaðurinn Sol Campbell skipti úr Tottenham Hotspur yfir í Arsenal sumarið 2001 enda félögin erkifjendur í Lundúnum og heiftin mikil milli stuðningsmanna þeirra. Í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins skýrir Campbell út hvaða ástæður lágu að baki þessum skiptum.   

„Sú ákvörðun var alfarið fagleg; gæði leikmanna Arsenal voru gríðarleg. Það lið stæðist bestu liðunum í dag snúning. Algjör hágæði. Hefði verið um uppbyggingu að ræða hefði ég sagt nei. En maður fær ekki mörg svona tækifæri á ferlinum, að spila með réttu leikmannablöndunni. Missi maður af lestinni er ekki víst að önnur komi. Og hafi maður misst af lestinni gæti maður horft til þess með eftirsjá áratugi síðar. Eftir að hafa unnið tvennuna á fyrsta tímabili mínu hjá Arsenal skildi ég loksins út á hvað þetta gengur – að vinna titla. Enda þótt við rétt misstum af sigri í Meistaradeildinni var þetta truflaður tími. Við vorum með frábært lið og lékum stórkostlegan fótbolta. Ég held að það sé fyrst núna sem áhangendur Arsenal eru að átta sig á því hversu góðir við vorum. Þetta getur gerst aftur en það útheimtir mikla vinnu. Lið þarf að koma sér upp réttu blöndunni af leikmönnum, á réttum tíma.“

– Meðan þú varst hjá félaginu biðuð þið ekki ósigur í 49 leikjum í röð, þar með talið allt tímabilið 2003-04. Þannig varðst þú hluti af Hinum ósigrandi enda þótt stundum skylli hurð nærri hælum, eins og þegar vítaspyrna Ruuds van Nistelrooys hafnaði í þverslánni.

„Þetta er hárfínn þráður. Sjálfur held ég að met af þessu tagi velji mann en ekki öfugt. Þetta met valdi okkur en ekki við það. Oft munar ekki miklu, hefði skotið sem þú vísar til endað í netinu hefði ekkert met verið sett. Það stóð tæpt í fleiri leikjum, eins og heima gegn Liverpool þegar Thierry [Henry] gekk hreinlega á vatni í seinni hálfleik. Meira að segja í seinasta leiknum, gegn Leicester, vorum við 1:0 undir en rífum okkur upp og unnum, 2:1. Þú skilur hvað ég er að fara? Allt snýst þetta um augnablik. Þau velja þig en þú ekki þau. Eins og annað í lífinu.“

Þeir gjörsamlega misstu sig

– Ákvaðstu á einhverju tilteknu augnabliki að þú vildir fara frá Spurs?

„Ég minnist þess að hafa leikið gegn Manchester United á lokadegi tímabilsins 1999. Þeir urðu að vinna til að tryggja sér titilinn. Enda þótt við kæmumst yfir með marki frá Les Ferdinand unnu þeir, 2:1, og völlurinn sprakk í loft upp eftir lokaflautið. Á því augnabliki horfði ég á þá strákana og hugsaði ég með mér: Hvað er ég að gera hérna? Þeir gjörsamlega misstu sig og fólk hoppaði upp og niður vegna þess að þeir höfðu orðið meistarar á lokadegi mótsins. Ætli það hafi ekki verið þá sem ég hugsaði með mér: Hversu lengi get ég horft upp á þessa gaura – sem ég er með í landsliðinu – vinna deildina? Þegar manni finnst maður vera að gefa allt í eitthvað en rófan gengur eigi að síður ekki finnur maður að tíminn er að hlaupa frá manni.“

Ítarlega er rætt við Sol Campbell í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en Tottenham og Arsenal áttu að mætast í úrvalsdeildinni dag. Leiknum var frestað.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert