„Ljósin eru kveikt en það er enginn heima“

Marcus Rashford hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.
Marcus Rashford hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu. AFP

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, segir að eitthvað sé augljóslega að plaga Marcus Rashford, sóknarmann liðsins, en hann hefur ekki náð sér á strik á tímabilinu.

Rashford spilaði gegn Aston Villa í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar fyrir sléttri viku en missti af leiknum í deildinni gegn Villa á laugardaginn vegna smávægilegra meiðsla.

„Hann hefur gert stórkostlega hluti á síðustu árum, innan og utan vallar, en það er augljóslega eitthvað að.

Ég horfði á hann á mánudagskvöld og hugsaði með mér: „Ljósin eru kveikt en það er enginn heima.“ Strákurinn lítur út fyrir að vera týndur. Það er eitthvað að,“ sagði Keane á Sky Sports eftir deildarleikinn á laugardag.

Hann kallaði þá eftir því að Rashford yrði veittur sá stuðningur sem hann þarf á að halda.

„Þegar ungir leikmenn eiga í hlut snýr þetta oft að sjálfstrausti. Þetta gæti tengst einhverju á knattspyrnuvellinum og þetta gæti verið eitthvað utan vallar.

Félagið verður að hjálpa honum, eldri leikmennirnir verða að hjálpa ungu leikmönnunum. Það er margt að hjá Man. United um þessar mundir sem þarf að laga,“ bætti Keane við.

mbl.is