„Vissum að þetta yrði ekki auðvelt“

Rafael Benítez var rekinn sem knattspyrnustjóri Everton í gær.
Rafael Benítez var rekinn sem knattspyrnustjóri Everton í gær. AFP

Rafael Benítez, fráfarandi knattspyrnustjóri Everton, segir að hann ásamt starfsliði sínu ekki hafa fyllilega gert sér grein fyrir því hversu erfitt verkefnið myndi vera. Benítez var rekinn í gær og entist aðeins 195 daga í starfi.

Er það næst stysta stjóratíð í sögu Everton. Aðeins Sam Allardyce entist skemur, eða í 167 daga.

„Við vissum að þetta yrði ekki auðvelt. Þetta var mikil áskorun, bæði tilfinningalega og íþróttalega séð.

Ást mín í garð þessarar borgar, svæðisins og fólksins sem býr hér varð til þess að ég tók áskoruninni en það er aðeins þegar maður er kominn að maður attar sig á umfangi verkefnisins,“ sagði Benítez í yfirlýsingu eftir að hann var látinn taka pokann sinn í gær.

Everton var búið að fá til liðs við sig þrjá nýja leikmenn í janúarglugganum, þá Anwar El Ghazi, Vitaly Mykolenko og Nathan Patterson, auk þess sem Lucas Digne var seldur eftir að hafa lent upp á kant við Benítez.

Dominic Calvert-Lewin og Yerry Mina hafa verið að glíma við þrálát meiðsli á tímabilinu og telur Benítez að liðið hefði staðið sig betur ef ekki hefði verið fyrir meiðsli lykilmanna.

„Allt frá fyrsta degi vann ég og samstarfsfólk mitt eins og við gerum ávallt, af fullri skuldbindingu og hollustu. Við þurftum ekki bara að ná í úrslit, við þurftum einnig að fá stuðningsmenn á okkar band.

Hins vegar sáu fjárhagsstaðan og svo öll þau meiðsli sem fylgdu til þess að hlutirnir urðu enn erfiðari. Ég er sannfærður um að við hefðum staðið okkur betur þegar meiddu leikmennirnir kæmu aftur ásamt nýju leikmönnunum.“

Minni og minni þolinmæði

Everton er í 15. sæti ensku úrvalsdeildinnar með 19 stig að loknum 19 leikjum, sex stigum frá fallsæti. Þrátt fyrir slælegan árangur hefði Benítez viljað fá meiri tíma.

„Leiðin í átt að árangri er ekki alltaf auðveld og því miður er það þannig í fótbolta nú til dags að góð úrslit verða alltaf að koma strax og það er alltaf minni og minni þolinmæði.

Því miður hafa aðstæður orðið þess valdandi að úrslitin hafa ekki verið góð og það verður ekki mögulegt að halda þessu verkefni áfram.

Hvað sem því líður vil ég þakka stjórninni, starfsfólki, leikmönnum og þeim stuðningsmönnum sem hafa stutt okkur á þessum tíma,“ sagði hann einnig.

mbl.is