Sóknarmaður United hafnaði Tottenham og Newcastle

Anthony Martial hefur einungis byrjað tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni …
Anthony Martial hefur einungis byrjað tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Anthony Martial, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hafnaði því að ganga til liðs við bæði Tottenham og Newcastle á dögunum. Það er The Guardian sem greinir frá þessu.

Martial, sem er 26 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu en hann hefur ekki átt fast sæti í liði United á tímabilinu.

Frakkinn hefur aðeins byrjað tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og þá hefur hann komið við sögu í sjö leikjum alls þar sem hann hefur skorað eitt mark.

Forráðamenn United eru tilbúnir að leyfa Martial að yfirgefa félagið í janúarglugganum en það bendir flest til þess að hann muni fara frá félaginu á láni.

Martial er sagður vilja spila utan Englands en spænsku liðin Sevilla og Barcelona eru bæði sögð áhugasöm um leikmanninn, sem og Juventus á Ítalíu.

Frakkinn á að baki 268 leiki fyrir United í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 79 mörk en United vill fá í kringum 35 milljónir punda fyrir leikmanninn.

mbl.is