Eðlilegt að Ronaldo sé pirraður

Ralf Rangnick var ánægður með spilamennsku sinna manna í síðari …
Ralf Rangnick var ánægður með spilamennsku sinna manna í síðari hálfleik í kvöld. AFP

„Við urðum að gera ákveðnar breytingar í hálfleik,“ sagði Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við BT Sport eftir 3:1-sigur liðsins gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í Brentford í kvöld.

„Ég sagði ekki mikið í hálfleik en fyrri hálfleikurinn var skelfilegur. Við vorum miklu beinskeyttari í síðari hálfleik og liðið var ofar á vellinum. 

Við tókum réttar ákvarðanir í skyndisóknunum okkar og okkur tókst að skora. Það var stærsti munurinn á hálfleikunum tveimur,“ sagði Rangnick.

Þýski stjórinn tók Cristiano Ronaldo af velli á 71. mínútu en Portúgalinn virkaði pirraður með skiptinguna.

„Það er eðlilegt að hann hafi verið pirraður þegar hann var tekinn af velli. Hann er framherji og framherjar vilja skora mörk.

Hann er að koma til baka eftir smávægileg meiðsli og það er mikilvægur leikur framundan gegn West Ham um helgina þannig að ég vildi ekki taka neina áhættu,“ bætti Rangnick við.

mbl.is