Alls konar svívirðingar og stríðni

Steven Gerrard er tilbúinn í slaginn á Goodison Park á …
Steven Gerrard er tilbúinn í slaginn á Goodison Park á morgun. AFP

Steven Gerrard knattspyrnustjóri Aston Villa á von á því að stuðningsfólk Everton láti hann heyra það óþvegið á morgun þegar hann mætir með sitt lið á Goodison Park í Liverpool.

Gerrard lék í sautján ár með Liverpool, erkifjendum Everton, og er ýmsu vanur úr borgarslagnum frá árum áður.

„Það verður fullt af svívirðingum, fullt af alls konar stríðni í minn garð, sem er bara besta mál. Þar með verður minna álag á leikmönnum mínum og þeir geta einbeitt sér að leiknum. Ég er með nægilega breitt bak og nægilega þykkan skráp til að taka við öllu slíku," sagði Gerrard á fréttamannafundi í dag.

Hann mun tefla fram vinstri bakverðinum Lucas Digne, sem Villa keypti af Everton á dögunum í kjölfarið á því að hann lenti upp á kant við Rafael Benítez knattspyrnustjóra, sem nú hefur verið rekinn frá Everton.

„Ég er viss um að stuðningsfólk Everton tekur vel á móti Lucasi því hann gaf allt sitt til félagsins á meðan hann var leikmaður þess. Ég er afar ánægður með hann, Lucas sýndi gegn Manchester United í hvaða gæðaflokki hann er og hefur fylgt því eftir á æfingum í vikunni," sagði Gerrard en leikur Everton og Villa hefst kl. 12.30 á morgun.

mbl.is