Ætluðum ekki að verða bestir í heimi

Jürgen Klopp er ánægður með veturinn hjá Liverpool.
Jürgen Klopp er ánægður með veturinn hjá Liverpool. AFP/Pail ELLIS

„Eigi ég að vera alveg ærlegur þá er Manchester City alltaf líklegast í öllum keppnum sem við tökum þátt í. Ekki svo að skilja að ég vilji koma þeim í þá stöðu, þetta er bara staðreynd. Á móti kemur að við ætluðum okkur aldrei að verða besta lið í heimi, heldur liðið sem er þess umkomið að vinna besta lið í heimi. Og það höfum við gert, en það er ekki auðvelt, skal ég segja þér.“

Þetta segir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Gengi Liverpool hefur verið frábært í vetur. Liðið er þegar búið að vinna deildarbikarinn og á enn þá möguleika á sögulegri fernu. Leikið verður til úrslita við Chelsea um enska bikarinn í dag, laugardag. Liðið er aftur upp á sitt besta og í Luis Díaz nældi Liverpool í enn einn gullmolann á leikmannamarkaðnum.

Kólumbíumaðurinn Luis Díaz hefur komið eins og stormsveipur inn í …
Kólumbíumaðurinn Luis Díaz hefur komið eins og stormsveipur inn í lið Liverpool. AFP/Paul ELLIS


Gunnurinn var lagður seinasta sumar en menn héldu vel á spöðunum á undirbúningstímabilinu. „Já, það skipti öllu,“ viðurkennir Klopp. „Við vorum meira og minna með allan hópinn. Ég er hins vegar hundfúll út í knattspyrnusamböndin sem skipuleggja æfingalandsleiki yfir sumartímann. Þurfi menn að spila keppnisleiki skil ég það vel en hvers vegna að setja á vináttuleiki þegar leikmenn gætu fengið kærkomið frí? Ótrúlegt rugl. En að þessu sinni fengu allir álíka langt frí og síðan alvöru undirbúningstímabil.“

Undirbúningstímabilið gríðarlega mikilvægt

Hann segir undirbúningstímabilið gríðarlega mikilvægt frá taktískum sjónarhóli. „Mikilvægast er samt að leggja líkamlegan grunn að tímabilinu í heild. Þegar leikið er þrisvar í viku sveiflast menn stöðugt á milli mikils krafts og algjörrar hvíldar. Þá þurfa menn á góðum grunni að halda, ekki bara þeir sem leika mikið, heldur ekki síður hinir. Hvernig geta menn nefnilega haldið sér í formi ef þeir spila sjaldan og æfingum fækkar líka? Þess vegna verður grunnurinn að vera fyrir hendi.“

Fabinho og Mohamed Salah hafa farið á kostum með Rauða …
Fabinho og Mohamed Salah hafa farið á kostum með Rauða hernum á tímabilinu. AFP


Skýringin á góðu gengi í vetur er bein afleiðing af því að menn hafa haldið sig við grunngildin, trúir Klopp, sem sjálfur er enn eins hungraður og áður. „Við erum enn að byggja upp og eltast við titla. Eigi að síður finnst okkur við vera hvergi nærri þeim stað sem við viljum vera á. Svo það sé sagt alveg eins og það er. Samt er félagið í góðum málum, óháð því hvað gerist nú í vor. Við getum enn þá unnið allt en ef við töpum öllu sem eftir er þá munu menn segja: „Jæja, uss, hvað nú?“ Allt er enn opið og það er hluti af ferlinu. Ég er mjög ánægður með liðið í vetur.“

Rætt er við Jürgen Klopp á tveimur opnum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert