Þetta er ekki venjulegur leikur

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool. AFP/Pail Ellis

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool segir að leikur liðsins við Chelsea í dag sé ekki eins og hver annar leikur. Liðin mætast í úrslitaleik enska bikarsins á Wembley seinni partinn í dag.

Liðin mættust einnig í úrslitum enska deildarbikarsins en þar fór Liverpool með sigur af hólmi eftir vítaspyrnukeppni.

„Við unnum ekki Chelsea þar, við unnum vítaspyrnukeppnina, eina svakalegustu vítaspyrnukeppni allra tíma. Við vitum það að maður þarf heppni í fótbolta og hún var svo sannarlega með okkur þá.

Síðasti úrslitaleikur var mjög erfiður. Chelsea er með frábært lið og við eigum von á öðrum jafn erfiðum leik. Bæði lið munu gefa allt sitt í þetta. “

Enski bikarinn er einn af fáum keppnum sem Klopp hefur ekki unnið sem stjóri Liverpool. 

„Ég hef aldrei unnið enska bikarinn og flestir leikmennirnir hafa ekki gert það heldur. Við hlökkum mikið til, strákarnir hafa gefið allt til að komast þangað svo þetta er virkilega stór dagur.

Það mun aldrei gerast að við horfum á úrslitaleik enska bikarsins sem venjulegan leik. Þetta er einstakur leikur, sá stærsti á ferli margra. Við viljum vinna fyrir okkar fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert