Fer frá Liverpool til AC Milan

Divock Origi fagnar marki gegn Everton í leik liðanna í …
Divock Origi fagnar marki gegn Everton í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. AFP/Paul Ellis

Belgíski knattspyrnumaðurinn Divock Origi hefur samþykkt að ganga í raðir ítalska liðsins AC Milan frá enska liðinu Liverpool þegar samningur hans rennur út í sumar.

The Guardian greinir frá því að Origi eigi eftir að fara í læknisskoðun og skrifa undir samninginn við AC Milan, sem er efst í ítölsku A-deildinni þegar aðeins ein umferð er eftir á yfirstandandi tímabili, en að hann hafi þó gert munnlegt samkomulag við liðið.

Origi, sem er 27 ára gamall sóknarmaður, var keyptur til Liverpool sumarið 2014 frá Lille en var lánaður strax aftur þangað og hóf að leika með Liverpool ári síðar.

Hann var lánaður til þýska liðsins Wolfsburg tímabilið 2017/2018 og hefur stærstan hluta ferils síns hjá Liverpool verið í aukahlutverki.

Origi er þó í miklum metum hjá félaginu og stuðningsmönnum þess enda skorað mörg mikilvæg mörk á ferli sínum þar, þar á meðal tvö mörk í 4:0-sigri gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 2019 og síðara markið í 2:0-sigri á Tottenham Hotspur í úrslitaleik keppninnar sama ár, þegar hann gulltryggði sjötta Meistaradeildartitil Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert