Hvort fellur Leeds eða Burnley?

Raphinha og félagar hans í Leeds eru í fallsæti fyrir …
Raphinha og félagar hans í Leeds eru í fallsæti fyrir leiki dagsins. AFP/Oli Scarff

Í dag ræðst hvort það verður Leeds United eða Burnley sem hafnar í átjánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu og þarf að sætta sig við fall niður í B-deildina.

Lokaumferð deildarinnar er öll leikin í dag klukkan 15.00 en eftir sigur Everton á Crystal Palace á fimmtudagskvöldið varð ljóst að fallslagurinn myndi í lokin standa á milli Burnley og Leeds.

Burnley á heimaleik gegn Newcastle en Leeds á útileik gegn Brentford.

Bæði lið eru með 35 stig en Burnley er með mun betri markatölu og tryggir sér því áframhaldandi sæti með sigri í dag.

Leeds þarf því að treysta á að Burnley vinni ekki Newcastle og ná betri úrslitum í viðureign sinni við Brentford í London.

Newcastle og Brentford eru bæði með 46 stig í 11. og 12. sæti deildarinnar og spila aðeins upp á stoltið og endanlegt sæti en þessi tvö lið geta endað hvar sem er frá tíunda til fjórtánda sætis.

Watford með 23 stig og Norwich með 22 eru þegar fallin í B-deildina. Í stað þeirra koma Fulham og Bournemouth, og þá eiga Huddersfield og Nottingham Forest eftir að mætast í úrslitaleik á Wembley um síðasta úrvalsdeildarsætið.

mbl.is