Vieira sleppur við refsingu

Patrick Vieira sleppur við refsingu fyrir að sparka stuðningsmann niður.
Patrick Vieira sleppur við refsingu fyrir að sparka stuðningsmann niður. AFP/Oli Scarff

Enska knattspyrnusambandið mun ekki refsa franska knattspyrnustjóranum Patrick Vieira fyrir að sparka í stuðningsmann Everton. Stuðningsmaðurinn veittist að Vieira, sem stýrir Crystal Palace, eftir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni 19. maí.

Everton vann 3:2 og tryggði sér áframhaldandi veru í deild þeirra bestu í leiðinni. Eftir leik fjölmenntu stuðningsmenn félagsins inn á völlinn.

Einn þeirra ákvað að gera gys að Vieira, ögra hon­um og hreyta ókvæðisorðum í hann þegar franski stjór­inn var að reyna að ganga af velli. Vieira sparkaði stuðnings­mann­inn þá niður.

Lögreglan rannsakaði málið í stutta stund en ákvað að aðhafast ekki frekar. Nú hefur enska knattspyrnusambandið gert slíkt hið sama.

mbl.is