Derby loksins laust úr greiðslustöðvun

Stuðningsfólk Derby County fjölmennti oft fyrir utan leikvang félagsins í …
Stuðningsfólk Derby County fjölmennti oft fyrir utan leikvang félagsins í vetur og vor til að sýna liðinu stuðning.

Níu mánaða greiðslustöðvun enska knattspyrnufélagsins Derby County lauk í dag þegar heimamaðurinn David Clowes og fasteignafyrirtæki hans keyptu félagið.

Margir líklegir eigendur hafa komið fram á undanförnum níu mánuðum en enginn þeirra hlaut samþykki skiptaráðenda félagsins. Nú síðast varð ekkert úr kaupum Chris Krichners á félaginu og það leiddi til þess að Wayne Rooney knattspyrnustjóri Derby sagði starfi sínu lausu.

Alls var 21 stig tekið af Derby í ensku B-deildinni á síðasta tímabili vegna greiðslustöðvunarinnar og annarra fjárhagslegra vankanta. Það leiddi til þess að liðið féll niður í C-deildina en átti þó lengi vel raunhæfa möguleika á að bjarga sér frá falli.

Félagið hefur ekki mátt kaupa leikmenn í hálft annað ár og Rooney náði á síðasta tímabili að setja saman lið úr samningslausum leikmönnum og ungum strákum úr unglingastarfi félagsins, sem fékk meira en nóg af  stigum til að halda sér í deildinni, ef stigarefsingin hefði ekki komið til. Mikil stemning var meðað stuðningsfólks félagsins sem troðfyllti leikvang Derby á mörgum leikjum og liðið var ítrekað með meira en 30 þúsund manns á heimaleikjum, fleiri en nokkurt annað lið í B-deildinni.

Enska deildakeppnin staðfesti í yfirlýsingu í dag að með yfirtöku Clowes uppfyllti félagið öll skilyrði til þess að mega kaupa leikmenn og hefja eðlilegan rekstur á nýjan leik.

Margir leikmenn hafa yfirgefið Derby í sumar, auk Rooneys. Aðstoðarmaður hans, Liam Rosenior, er knattspyrnustjóri félagsins til bráðabirgða og getur nú byrjað að setja saman nýtt lið fyrir C-deildina sem fer af stað um næstu mánaðamót.

David Clowes er 53 ára gamall og hefur verið stuðningsmaður Derby County alla ævi. Hann hafði þegar keypt leikvang félagsins, Pride Park, og tryggt að félagið gæti leikið þar áfram á næsta tímabili.

Derby lék síðast í úrvalsdeildinni tímabilið 2007-08 og hefur verið í B-deildinni síðan. Félagið varð enskur meistari árin 1972 og 1975 og í vor voru einmitt mikil hátíðahöld í borginni í tilefni þess að fimmtíu ár voru þá liðin frá fyrra meistaratitlinum.

Clowes sagði í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins í dag að hann hefði sem stuðningsmaður Derby County frá barnæsku ekki getað átt það á hættu að félagið yrði lagt niður. „Ef ég  hefði ekki lagt allt mitt í sölurnar til að koma í veg fyrir hað hefði ég ekki getað horft framan í sjálfan mig í spegli. Þess vegna er það gríðarlega spennandi að taka þátt í að byggja upp nýja framtíð félagsins á Pride Park fyrir félagið, stuðningsfólkið og hið dygga starfslið félagsins sem hefur mátt þola margt. Hinn sanni andi félagsins byggir á stuðningsfólkinu, án þess væri félagið ekki neitt," sagði Clowes m.a. í yfirlýsingunni.

mbl.is