Úrvalsdeildarleikmaður handtekinn grunaður um nauðgun

AFP/Oli Scarff

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hefur verið handtekinn í Norður-Lundúnum á Englandi vegna gruns um nauðgun.

The Athletic greinir frá.

Þar er leikmaðurinn ekki nefndur með nafni enda færi það gegn breskum lögum, en greint er frá því að hann sé tæplega þrítugur.

Hann er um þessar mundir í gæsluvarðhaldi þar sem yfirheyrslur vegna hins meinta kynferðisbrots, sem er sagt hafa átt sér stað í síðasta mánuði, fara fram.

Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum á Englandi vegna málsins sagði:

„Þann 4. júlí tilkynnti kona á þrítugsaldri lögreglu um ásökun um nauðgun. Þar kom fram að meint nauðgun hafi átt sér stað í júní 2022.

Maðurinn var handtekinn á heimili í Barnet grunaður um nauðgun og færður í gæsluvarðhald þar sem hann er nú. Rannsókn á atburðarásinni er í fullum gangi.“

mbl.is