Bandaríkin frekar en England?

Jesse Lingard fagnar marki með enska landsliðinu.
Jesse Lingard fagnar marki með enska landsliðinu. AFP

Þó að nokkur lið í ensk úrvalsdeildinni hafi áhuga á að fá Jesse Lingard í sínar hendur eftir að hann varð laus allra mála hjá Manchester United gæti farið svo að hann færði sig yfir til Bandaríkjanna.

ESPN kveðst hafa heimildir fyrir því að Lingard sé á leið vestur um haf til að heyra hvað áhugasöm lið í MLS-deildinni hafi að bjóða. Sagt er að tvö lið í deildinni séu tilbúin til að bjóða honum samninga sem gætu markað tímamót fyrir bandarísk félög.

Bæði West Ham og Everton hafa sýnt áhuga á að fá þennan 29 ára gamla leikmann í sínar raðir en hann lék mjög vel með West Ham fyrir rúmu ári síðan þegar hann var þar nokkra mánuði í láni frá Manchester United. Þá skoraði hann níu mörk í sextán leikjum fyrir Hamrana.

Lingard hefur leikið með Manchester United frá barnæsku en fékk fá tækifæri síðustu árin og var aðeins tvisvar í byrjunarliðinu í úrvalsdeildinni síðasta vetur, þrátt fyrir að hafa skorað tvívegis eftir að hafa komið inn á sem varamaður og skorað tvö mörk fyrir England í 4:0 sigri á Andorra.

mbl.is