Gat ekki sóað tíma mínum hjá City

Raheem Sterling í fyrsta leik sínum með Chelsea um síðustu …
Raheem Sterling í fyrsta leik sínum með Chelsea um síðustu helgi. AFP/Lindsey Parnaby

Enski sóknarmaðurinn Raheem Sterling segist ekki hafa getað eytt meiri tíma hjá Englandsmeisturum Manchester City þar sem hann átti ekki fast byrjunarliðssæti undanfarin ár og bestu ár ferilsins fram undan.

Sterling, sem er 27 ára gamall, var keyptur til Chelsea í sumar eftir sjö ára dvöl hjá City, sem keypti hann frá Liverpool sumarið 2015.

„Frá því að ég var 17 ára gamall hef ég verið byrjunarliðsmaður og verandi að nálgast hápunkt ferils míns án þess að vera að spila regulega var eitthvað sem ég gat ekki sætt mig við.

Persónuleiki minn er þannig að ég reyni að berjast og breyta stöðunni en hún gerði það ekki og þannig var það,“ sagði Sterling í samtali við BBC Sport.

Hann byrjaði sífellt færri deildarleiki með hverju tímabilinu frá árinu 2018 og því fannst Sterling tímabært að róa á önnur mið.

„Sem manneskja reynir maður að ná árangri og mér fannst bara sem tími minn hjá City væri að taka enda þar sem ég var að spila minna af hinum ýmsu ástæðum.

Ég hafði ekki efni á því að eyða þeim tíma og ég fann því þörf fyrir að halda mér á hæsta stigi og takast á við nýja áskorun,“ bætti hann við.

mbl.is