Conte um rifrildið: „Vil ekki tjá mig um þetta“

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, var tregur til þess að ræða rifrildi sitt við Thomas Tuchel, knattspyrnustjóra Chelsea, á meðan og eftir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.

„Ég held að það sé betra að tala um leikinn. Þetta var spennandi og erfiður leikur fyrir bæði lið. Við viljum vera samkeppnishæfir í hverjum leik.

Ég tel að Chelsea hafi sýnt það í dag að þeir eru með mjög gott lið og samanborið við síðasta tímabil gerðum við frekar vel,“ sagði Conte eftir leik.

Spyrilinn reyndi að fá meira út úr honum um atvikið sem endaði með því að báðir knattspyrnustjórar fengu beint rautt spjald. Benti hann Conte á að Tuchel hafi sagst hafa reiðst þar sem Conte hafi ekki litið í augun á honum þegar þeir tókust í hendur í lok leiks.

„Ég vil ekki tjá mig um þetta mál því ég tel þetta ekki vera mikilvægasta hlutinn. Ef það er vandamál þá er það milli mín og hans og ekki annarra.“

Spurður hvort það væri þá vandamál milli hans og Tuchel sagði Conte einnig:

„Kannski smá en ég vil tala um leikinn, ekki atvikið. Við erum hér til þess að tala um fótbolta, ekki atvik milli þjálfaranna tveggja.“

Viðtalið við Conte má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert