Ferguson bar vitni í réttarhöldunum yfir Giggs

Sir Alex Ferguson og Ryan Giggs unnu lengi saman.
Sir Alex Ferguson og Ryan Giggs unnu lengi saman. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United á Englandi, var kallaður til sem vitni í réttarhöldunum yfir knattspyrnumanninum fyrrverandi Ryan Giggs sem nú standa yfir við krúnudómstólinn í Manchester.

Giggs er meðal annars sakaður um heimilisofbeldi og misnotkun á fyrrverandi kærustu sinni, Kate Greville, á meðan sambandi þeirra stóð.

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi hefur neitað öllum ásökunum en verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm.

Hann var sá besti

„Ryan var algjör fyrirmyndarleikmaður og hann var fyrirmynd annarra leikmanna í búningsklefanum,“ sagði Ferguson fyrir rétti í dag.

„Stundum missti ég mig þegar að við höfðum spilað illa eða tapað og þá lét Giggs oft heyra það. Það var aldrei vandamál því ég vissi að hann gæti tekið því. 

Aðrir leikmenn horfðu á Giggs og hugsuðu þegar að ég lét hann heyra það að fyrst hann gæti þetta þá gætu þeir það líka,“ sagði Ferguson.

Þá var skoski stjórinn spurður út í skapgerð Giggs af lögfræðingum hans.

„Hann var með frábæra skapgerð og algjör fyrirmyndarleikmaður. Hann var sá besti þegar kom að því að haga sér eins og sannur atvinnumaður,“ bætti Ferguson við.

Ryan Giggs mætir til réttarhaldaranna í dag.
Ryan Giggs mætir til réttarhaldaranna í dag. AFP/Lindsey Parnaby
mbl.is