„Hann vissi upp á sig sökina og baðst afsökunar“

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP/Justin Tallis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir Darwin Núnez, vera verulega svekktan út í sjálfan sig eftir rauða spjaldið sem hann fékk fyrir að skalla Joachim Andersen, miðvörð Crystal Palace, í leik liðanna síðastliðið mánudagskvöld.

Andersen hafði atast í Núnez allan leikinn og ýtti við honum eftir tæplega klukkutíma leik. Þá var Núnez nóg boðið og skallaði danska varnarmanninn,

„Auðvitað höfum við rætt við Darwin og hann var afar svekktur út í sjálfan sig. Það sem miðvörðurinn þeirra gerði, hann er ekki sá eini í heiminum sem gerir þetta.

Ég hef ekki þurft að glíma við svona áður þannig ég er ekki neinn sérfræðingur þegar kemur að svona umræðu. En hann vissi upp á sig sökina og baðst afsökunar. Öll gerum við mistök,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í morgun.

Liverpool heimsækir erkifjendur sína og nágranna í Manchester United á Old Trafford næstkomandi mánudagskvöld.

Sagði Klopp á fundinum að Roberto Firmino væri klár í slaginn eftir að hafa misst af leiknum gegn Palace vegna smávægilegra meiðsla. Naby Keita væri þá búinn að jafna sig á veikindum og því einnig klár í slaginn.

Joe Gomez, sem kom inn á sem varamaður gegn Palace þar sem hann var ekki fyllilega leikfær fyrir þann leik, er sömuleiðis fyllilega klár í slaginn og staðfesti Klopp að hann muni byrja í vörn Liverpool gegn Man. United.

Joel Matip, Ibrahima Konaté, Diogo Jota, Curtis Jones, Thiago, Alex Oxlade-Chamberlain og varamarkvörðurinn Caoimhin Kelleher eru hins vegar allir enn meiddir og verða ekki með gegn Man. United.

mbl.is