Efaðist aldrei um eigin getu

Ivan Toney.
Ivan Toney. AFP/Ian Kington

Knattspyrnumaðurinn Ivan Toney, leikmaður Brentford, er nýliði í enska A-landsliðshópnum fyrir tvo leiki í Þjóðadeild UEFA í landsleikjahléinu sem brátt fer í hönd. Hann kveðst aldrei hafa efast um eigin getu.

Toney, sem er 26 ára gamall sóknarmaður, hefur skotist upp á stjörnuhimininn undanfarin ár eftir að hafa fyrst og fremst leikið í ensku C-deildinni. Hann lék aðeins eitt tímabil í ensku B-deildinni þar sem hann raðaði inn mörkum og skoraði til að mynda 12 mörk fyrir Brentford í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, sínu fyrsta í deildinni.

Hann er þá þegar búinn að skora fimm deildarmörk á yfirstandandi tímabili.

„Mér líður sem ég hafi fulla trú á sjálfum mér. Ég lék aldrei fyrir yngri landsliðin þannig að það að fara beint í A-landsliðið er stórt afrek,“ sagði Toney á blaðamannafundi í gær.

„Ef þú sérð hlutina fyrir þér er alltaf góður möguleiki fyrir hendi á að framkvæma þá.

Hvar sem ég var, hvort sem það var á láni hér, þar og alls staðar, trúði ég alltaf á sjálfan mig og að einn daginn myndi ég verða úrvalsdeildarleikmaður.

Nú er ég úrvalsdeildarleikmaður og enskur landsliðsmaður,“ bætti hann við.

England á fyrir höndum leiki gegn Ítalíu og Þýskalandi í Þjóðadeildinni, sem teljast til keppnisleikja.

Toney getur enn valið að spila fyrir lærisveina Heimis Hallgrímssonar í Jamaíku en leiki hann þrjá keppnisleiki fyrir England er sá möguleiki ekki lengur fyrir hendi.

Sagðist Toney vonast til þess að vinna sér inn sæti í leikmannahópi Englands fyrir HM 2022 í Katar, sem hefst eftir tæplega tvo mánuði.

„Þetta er risa tækifæri fyrir mig til þess að vinna mér inn sæti í flugvélinni. En ég verð bara að taka leik fyrir leik.

Vonandi fæ ég nokkrar mínútur í leikjunum sem við eigum fyrir höndum,“ sagði hann.

mbl.is