Hringdi og bað Harry Maguire afsökunar

Harry Maguire er dýrasti varnarmaður í sögu úrvalsdeildarinnar.
Harry Maguire er dýrasti varnarmaður í sögu úrvalsdeildarinnar. AFP/Oli Scarff

Paul Merson, sparkspekingur hjá Sky Sports, hringdi í Harry Maguire fyrirliða enska knattspyrnufélagsins Manchester United árið 2019 og bað hann afsökunar á ummælum sem hann lét falla um miðvörðinn.

Merson greindi sjálfur frá þessu í samtali við Telegraph en sumarið 2019 borgaði United úrvalsdeildarfélagi Leicester 80 milljónir punda fyrir enska varnarmanninn.

Maguire er dýrasti varnarmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Merson lýsti kaupunum, og verðmiðanum, á þeim tíma sem gjörsamlega fáránlegum og hafa sömu ummæli vakið mikla kátínu nú þegar ekkert gengur hjá miðverðinum.

„Ég hringdi í Brendan Rodgers stjóra Leicester og bað hann um símanúmerið hjá Maguire,“ sagði Merson.

„Ég var ósáttur með sjálfan mig með að hafa látið þetta út úr mér og ég gekk of langt. Ég sagði honum bara að mér hefði fundist verðmiðinn fáránlegur en að gagnrýnin hefði ekki átt rétt á sér.

Hann trúði mér ekki og hélt eflaust að þetta væri símaat. Hann hefur fengið ósanngjarna meðferð að mínu mati, alveg frá því hann gekk til liðs vð United,“ bætti Merson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert