Skýtur fast á leikmann Liverpool

Frank Leboeuf skaut föstum skotum á Trent Alexander-Arnold.
Frank Leboeuf skaut föstum skotum á Trent Alexander-Arnold. AFP/Paul Ellis

Franski knattspyrnumaðurinn fyrrverandi, Frank Leboeuf, skýtur föstum skotum á Trent Alexander-Arnold, bakvörð Liverpool, í pistli sem hann skrifar í enska dagblaðið Daily Mail.

Leboeuf, sem spilaði 50 landsleiki fyrir Frakkland á sínum tíma, er hann lék m.a. með Chelsea á Englandi, er allt annað en sáttur við varnarvinnu Liverpool-mannsins.

„Ég er mjög hrifinn af því hvernig hann sækir en hann verst eins og hann sé B-deildarleikmaður. Hann virkar bara í leikskipulaginu hjá Klopp og engum öðrum,“ skrifaði Frakkinn m.a.

Alexander-Arnold er ekki í leikmannahópi enska landsliðsins sem mætir Þýskalandi í Þjóðadeildinni í kvöld. Hann hefur ekki verið fyrsti kostur hjá landsliðsþjálfaranum Gareth Southgate, þrátt fyrir að vera einn besti bakvörður ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert