Á skotskónum gegn Englandsmeisturunum

Dagný Brynjarsdóttir skoraði mark West Ham í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði mark West Ham í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Brynjarsdóttir var á skotskónum þegar West Ham heimsótti Englandsmeistara Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í Lundúnum í kvöld.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Chelsea en Dagný, sem er fyrirliði West Ham, kom sínu liði yfir strax á 3. mínútu.

Það dugði hins vegar skammt því Francesca Kirkby jafnaði metin fyrir Chelsea á 40. mínútu áður en þær Samantha Kerr og Millie Bright bættu við sínu markinu hvor fyrir Chelsea í síðari hálfleik og þar við sat.

Dagný lék allan leikinn á miðjunni hjá West Ham en liðið er með 3 stig í sjöunda sæti deildarinnar en alls leika tólf lið í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is