Getur orðið besti bakvörður sögunnar bæti hann varnarleikinn

Trent Alexander-Arnold.
Trent Alexander-Arnold. AFP/Paul Ellis

Gary Neville, sparkspekingur hjá Sky Sports, segir Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörð Liverpool, hæglega getað orðið einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar í sinni stöðu en að til þess þurfi hann að bæta varnarleik sinn.

Alexander-Arnold hefur átt í miklum vandræðum varnarlega á yfirstandandi tímabili þar sem svo virðist sem andstæðingar Liverpool sæki gagngert upp vinstri kantinn með það fyrir augum að klekkja á honum.

Hæfileikar hins 23 ára bakvarðar, sem hefur átt stóran þátt í því að Liverpool hefur unnið alla titla sem í boði eru á undanförnum árum, liggja öðru fremur sóknarlega, þar sem hann er til að mynda stórkostlegur sendingamaður og sömuleiðis hættulegur skotmaður ásamt því að búa yfir góðum hraða.

„Enginn bakvörður sem ég hef séð spila á Englandi er fær um að gera það sem hann getur gert,“ sagði Neville í Monday Night Football-þætti Sky Sports í gærkvöld.

Hann lék sjálfur í stöðu hægri bakvarðar á farsælum ferli og þótti afar liðtækur bæði varnar- og sóknarlega. Neville sagði Alexander-Arnold allir vegir færir bæti hann viss grunnatriði varnarlega.

„Ef hann myndi bara vinna í þessum grunn varnar atriðum og ná fram stöðugleika þá erum við ekki bara með einn besta sóknarbakvörð sem England hefur framleitt, við erum þá líklega með besta hægri bakvörð sem heimurinn hefur alið af sér,“ sagði Neville.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert